139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:29]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Síðustu spurningu hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur á ég auðvelt með að svara. Af kynnum mínum af framsóknarmönnum eru þeir afar skynsamir og vilja fyrst og fremst að menn vandi sig við það sem þeir gera. Ég er alveg sannfærður um að þar sem menn hafa beðið frá því 1944 eftir nýrri stjórnarskrá, eða frá 1945, gætu þeir alveg hugsað sér að bíða í átta mánuði til viðbótar ef niðurstaðan yrði á þann veg að þverskurður þjóðarinnar kæmi að málum og að vandað yrði til verka svo að við nytum trausts og trúverðugleika.

Ég óttast að sú leið sem hér er til umræðu verði ævinlega því marki brennd að farið hafi verið á svig við Hæstarétt, niðurstaða Hæstaréttar, ég held að það heiti það, hafi verið sú að kosningin hafi verið ógild og þar með kannski allir sem þar voru kjörnir. Við ætlum síðan að velja þá 25 hér á þinginu. Það er alveg rétt að 80 þúsund manns kusu þennan hóp en það eru talsvert fleiri sem eru atkvæðisbærir hér í landinu. Við gætum hugsanlega vel fundið okkur einhverja aðra leið til að velja 25 eða 10 eða 30 sem við gætum hugsanlega líka náð sátt um. Ég held að við ættum að fara þá leið að gera þetta eins trúverðugt og hægt er. Ég er sannfærður um að framsóknarmenn mundu styðja það.

Ég veit vel að þeir valkostir sem menn stóðu frammi fyrir voru allir slæmir. Þess vegna enduðu menn kannski á þessu. Ég held að þessi kostur hafi ekki verið sá skásti, en ég held að þeir hafi allir verið slæmir. Þess vegna held ég að eina leiðin til að komast út úr þessu hafi verið sú að endurvinna málið (Forseti hringir.) frá upphafi og vanda okkur meira. Þar með er ég ekki að segja að menn hafi kastað til þess höndunum, en það var samt (Forseti hringir.) sem áður dæmt klúður.