139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:31]
Horfa

Flm. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það voru býsna mörg „ef“ í ræðu hv. þingmanns að þetta yrði jafnvel trúverðugt, og framsóknarmenn almennt mundu komast að þeirri niðurstöðu að þetta væri trúverðugt og gott, ef sátt næðist um það, ef fleiri tækju þátt og „ef“ o.s.frv.

Ég verð að segja að ég efast um að átta mánuðir mundu duga hér í Alþingi til að ná jafnvíðtækri sátt og náðist síðastliðið haust um kosningar til stjórnlagaþings. Ég met það svo af umræðum sem hafa verið uppi í samfélaginu og ekki síst meðal þingmanna því að þar sem við vorum nú komin, fimm þingmenn, fulltrúar þingflokkanna, held ég að hvert og eitt okkar hafi haft þrjár leiðir, þrjár athugasemdir, við gildandi lög um stjórnlagaþing sem við gætum vel hugsað okkur að breyta, þá erum við kannski komin með 15 grunnbreytingar sem þyrfti að ræða. Nú kom hv. þingmaður hér með eina tillögu til viðbótar, tillögu sem ég hef ekki heyrt áður, og ég er ansi hrædd um að býsna langan tíma þyrfti í Alþingi til að við færum að setja hér upp 25 einmenningskjördæmi í landinu.

En er það virkilega tillaga þingmannsins, við þær aðstæður sem nú eru, að við hendum frá okkur öllu því efni og allri þeirri vinnu sem lagt hefur verið upp með frá síðustu kosningum, í maí 2009, og byrjum bara að fitja upp á nýtt — að við endum kannski í 25 einmenningskjördæmum einhvern tímann á árinu 2012 og förum þá að huga að því hvað var í pokanum þegar við hættum verkinu í febrúar og byrjun mars 2011?