139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:33]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, ég held að engin ástæða sé til að henda frá okkur öllu því efni sem til að mynda þjóðfundurinn og stjórnlaganefndin hafa unnið. Ég held að við séum búin að fara ákveðinn farveg og við erum búin með ákveðinn hluta af vinnunni. Svo þegar kom að því að kjósa til stjórnlagaþings þá mistókst það. Það var niðurstaða Hæstaréttar, samkvæmt lögunum sem við settum, að sú kosning var dæmd ógild. Þar fyrir utan, eins og ég sagði, taldi ég ýmsa aðra annmarka á því, of litla kosningaþátttöku og lélega dreifingu fulltrúa um landið og jafnvel milli atvinnugreina. Ég tel alls ekki að við þurfum að henda frá okkur því sem við erum búin að vinna. Ég segi bara: Við erum komin á þennan stað og ég held við þurfum að vinna vinnuna þaðan betur en við höfum gert til þessa.

Ég held að sú leið sem hér er lögð til, og er til umræðu hér í dag, muni dæma sig sjálf til framtíðar, að þar höfum við reynt að fara fram hjá Hæstarétti, sniðganga hann. Við höfum reynt að finna einhverja óformlega lausn, einhverja léttilausn á sama tíma og við höfum verið að gagnrýna hvernig staðið hefur verið að verki í stjórnsýslunni á liðnum árum og áratugum. Ég óttast að þetta sé málið. Þannig að ég held að við þurfum að vanda okkur. Þó að það tæki tímann til 2012 held ég að það væri ekki það versta sem gæti komið fyrir. Ef okkur tækist hitt, að ná nægilegum áhuga í samfélaginu, fengjum eðlilegri dreifingu þeirra sem þarna sætu og þar af leiðandi trúverðugra stjórnlagaþing, sem menn mundu hafa meira traust til, held ég að sú vinna muni skila okkur miklum árangri á næstu 50–100 árum — einhverjir mánuðir til eða frá held (Forseti hringir.) ég að það skipti ekki máli. Það er mín bjargfasta skoðun.