139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:50]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get svo sem tekið undir það með hv. þm. Birgittu Jónsdóttur að finna þarf lausn á þessu vandamáli en það er mjög mikilvægt að eitthvert vit sé í þeirri lausn sem lögð er fram og að hún sé í einhverju samræmi við niðurstöður æðstu og virðulegustu stofnana þessa samfélags sem hafa tekið afstöðu til málsins.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann vegna orða hennar í ræðustól og sömuleiðis vegna þess sem kom fram í frammíkalli hennar fyrr í dag í þessari umræðu. Er hún þeirrar skoðunar að þeir 25 einstaklingar sem hlutskarpastir voru í stjórnlagaþingskosningum hafi með óyggjandi hætti náð kjöri í kosningunni? Er hv. þingmaður þeirrar skoðunar þrátt fyrir að kosningin hafi verið ógilt af æðsta dómstóli landsins að þeir séu rétt kjörnir fulltrúar?

Í öðru lagi, af því að hv. þingmaður er með mikið látbragð úti í sal þegar ég varpa fram spurningum til hennar og henni líður greinilega eitthvað hálfilla yfir þessum spurningum, langar mig til að spyrja hv. þingmann út í annað atriði. Tillagan gengur út á það að í stað þess að boðað sé til stjórnlagaþings samkvæmt upprunalegri tillögu sé skipuð nefnd, nefnd á vegum ríkisins sem kölluð er stjórnlagaráð, og ég geri ráð fyrir að nefndarmenn fái einhverja þóknun fyrir störf sín. Er gert ráð fyrir því úr því að hv. þingmaður (Forseti hringir.) er einn af flutningsmönnum tillögunnar að sú þóknun miðist við þingfararkaup?