139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:52]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Því miður virðist það vera svo að allmargir sjálfstæðismenn geti ekki komið sér upp úr Morfís-gírnum og það er sorglegt. Þegar ég tók þátt í kosningu til stjórnlagaþings lagði ég töluvert mikla vinnu á mig og ég held að allir sem tóku þátt í þeirri kosningu hafi lagt mikla vinnu á sig við að velja það fólk sem það treysti best til að koma með tillögur að breyttri stjórnarskrá.

Við vitum mjög vel að Sjálfstæðisflokkurinn vill alls ekki að almenningur landsins komi að því að breyta stjórnarskrá okkar, þeir vilja það ekki. Þeir vilja að þingið geri það. Þess vegna láta þeir svona og þess vegna finnst manni svolítið sorglegt að horfa upp á þá orðræðu sem hér er. (SKK: Viltu svara spurningunum?) Við erum búin að útskýra af hverju við fórum þessa leið. Ég bendi bara hv. þingmanni á að lesa þingsályktunartillöguna og þá greinargerð sem henni fylgir.