139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:57]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég hef reyndar aldrei upplifað það að sá hv. þingmaður sem síðast mælti væri í Morfís-leikjum en það er annað og ég var ekki að beina því að honum.

Til að svara hv. þingmanni þá er það nú svo, eins og ég hef útskýrt áður, að ég held að engin af þessum leiðum sé fullkomin. En ég verð samt að segja að mér finnst gríðarlega mikilvægt — [Kliður í þingsal.] ég er að svara þingmanni — að það hafi verið samfella í undirbúningnum og ég veit til þess eftir að hafa átt fund með þessum 25 fulltrúum að þau hafa verið að störfum og það hefur verið gott flæði á milli frá þjóðfundinum. Síðan voru þau að byrja að undirbúa sig undir að taka á móti tillögum stjórnlaganefndar og ég held að það væri verra ef það yrði langt rof á þeim undirbúningi. Ég held að ég geti með sanni sagt, miðað við það sem ég hef heyrt af vinnu stjórnlaganefndar, að hún byggi vinnu sína bæði á þjóðfundinum og allri þeirri vinnu sem hefur farið fram í þinginu í nefnd sem hefur fjallað um stjórnarskrármál og reynt að koma þar á einhverjum umbótum og umbreytingum. Það er bara mín einlæga tilfinning að ef við getum búið til gott starfsumhverfi og frið um það fólk sem valið yrði til að klára þennan lið verkefnisins væri það farsælast.