139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[18:00]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Þarna er ég alls ekki sammála hv. þingmanni af því að það kemur ekkert fram í ógildingu Hæstaréttar sem gefur til kynna að atkvæðin sem þetta fólk fékk hafi ekki verið réttilega fengin, ekki neitt. Ég get því ekki fallist á þessi rök. Mér finnst eins og ég sagði áður að við getum varla fengið betri leiðbeiningu um hverja velja ætti í slíka nefnd en þessa einstaklinga. Það er alveg sama hvaða leið við mundum reyna að fara, það mundi ríkja um það ósætti. Þetta er mjög umdeilt mál. Það eru ákveðnir aðilar í samfélaginu sem vilja alls ekki að þjóðin hafi svona mikið um þessi mál að segja. Við þurfum að horfast í augu við það.