139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[18:18]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að ég er þeirrar skoðunar að Alþingi Íslendinga fari með stjórnarskrárvaldið og vald til að breyta stjórnarskránni. Og það er ekki bara að ég sé þeirrar skoðunar, það stendur í stjórnarskránni. Það stendur meira að segja í stjórnarskránni að alþingismönnum sé óheimilt að taka við tillögum frá mönnum úti í bæ varðandi þær breytingar. Auðvitað geta menn gert slíkar tillögur en samkvæmt stjórnarskránni eru alþingismenn bundnir af sannfæringu sinni og engu öðru þegar þeir taka afstöðu til slíkra breytinga en þeir taka ekki við fyrirmælum frá utanaðkomandi aðilum.

Ég er alveg tilbúinn til að setjast niður með hv. þingmanni og kanna hvort hægt sé að gera þær breytingar á lögunum sem hv. þingmaður nefnir en ég tel hins vegar mjög óraunhæft að það takist fyrir þann tíma sem fyrirhuguð þjóðaratkvæðagreiðsla á að fara fram.