139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[18:19]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég á svolítið erfitt með að fóta mig í röksemdafærslu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar. Hann bendir á það sem ég held að okkur sé öllum ljóst að Alþingi er stjórnarskrárgjafi og það er náttúrlega alveg ljóst að þó að kosningin til stjórnlagaþings hefði ekki verið dæmd ógild hefði Alþingi eftir sem áður verið stjórnarskrárgjafinn þar sem stjórnlagaþingið átti að vera ráðgefandi þing.

Nú stendur til að Alþingi skipi stjórnarskrárnefnd og veiti þessu fólki umboð til að taka til starfa. Eftir að Hæstiréttur hefur ákvarðað, stjórnarfarsnefnd Hæstaréttar skipuð sex hæstaréttardómurum, að líta beri á kosninguna sem ógilda þá stendur fyrir dyrum að Alþingi veiti þessu fólki fullt umboð til að taka til starfa sem stjórnarskrárnefnd. Er þingmaðurinn þeirrar skoðunar að slík ákvörðun sé ólögleg? Telur þingmaðurinn að það sé ólögleg gjörð eða að Alþingi hafi ekki lagalegt umboð eða heimild til að skipa slíka nefnd og taka við tillögum frá henni og afgreiða síðan þær tillögur eftir þinglegum leiðum með atkvæðagreiðslu í þingsal?