139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

eldsneytisverð.

[10:34]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt að bera saman árið í ár og árið 2006 (Gripið fram í.) sem hv. þingmaður vitnaði til þar sem ég krafðist bensínlækkunar. (Gripið fram í.) Það er alveg ljóst að á því ári, 2006, var ríkissjóður rekinn með miklum afgangi og skattar ríkisins voru í sögulegu hámarki sem hlutfall af landsframleiðslu. Staðan á tekjum ríkissjóðs er allt önnur núna eftir hrunið þannig að við þurfum að skera niður eða afla tekna upp á á þriðja hundrað milljarða.

Engu að síður er full ástæða til að taka þetta mál upp og ég hef af því verulegar áhyggjur vegna þess að það vegur sannarlega þungt í framfærslukostnaði heimila. Eins og hv. þingmaður nefndi var málið rætt utan dagskrár um daginn og fór fjármálaráðherra þá yfir það sem hann taldi rétt að gera í málinu. Hann nefndi hvert hlutfall skatta af bensínverði væri í öðrum löndum, að það væri t.d. hærra á hinum Norðurlöndunum. Hér er verð á lítrann lægst á Íslandi af flestum Evrópulöndunum, aðeins Pólland er lægra. Að vísu verður að taka kaupmátt inn í dæmið og þá breytist útkoman auðvitað.

Fjármálaráðherra nefndi tvennt sem hann vildi gera: Hann vildi setja nefnd í málið til að skoða hvort ekki væri hægt að lækka flutningskostnað á bensíni. Ég er sammála honum um það. Hann nefndi líka almannasamgöngur sem ég tel að við ættum að skoða. (Gripið fram í.) Ég tel að nefndin eigi líka að skoða hvort hægt sé að lækka bensínið, ég tala ekki um dísilolíuna sem er orðin dýrari en bensínið, hvort hægt sé að skoða einhverjar leiðir í því efni. En ef menn vilja fara aðrar leiðir og lækka tekjur ríkissjóðs af eldsneyti t.d. með lækkun bensíngjalds eða dísilolíu verða þeir að finna aðrar tekjur á móti vegna þess að við höfum farið í gegnum fjárlögin og þar er reiknað með þessum gjöldum í tekjuafkomu (Forseti hringir.) ríkisins. Menn verða að mæta útgjöldum sem hljótast af lækkun á krónutölunni eða öðru, (Forseti hringir.) þeir verða að finna tekjur á móti.