139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

eldsneytisverð.

[10:37]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Hér er ekki verið að ræða hvort ríkið sé tilbúið til að gefa eftir af álögum sínum í fallandi skattstofni. Hér er verið að ræða hvort ríkið sé ekki tilbúið til að endurskoða opinberar álögur á eldsneyti á meðan það hækkar í sífellu. Ætlar hæstv. forsætisráðherra að haga því þannig að hærra heimsmarkaðsverð á olíu og hærra útsöluverð á Íslandi verði sérstakur tekjuauki fyrir ríkið? Er það það sem ríkisstjórnin stefnir að, að nota þær breytingar sem verða á eldsneytisverðinu sem einhvers konar matarholu fyrir ríkisstjórnina? Það gengur augljóslega ekki upp.

Ég vil biðja hæstv. forsætisráðherra að athuga hversu mikil áhrif verðþróunin er farin að hafa á magnið. Hafi forsætisráðherra áhuga á að viðhalda þeim tekjustofni (Forseti hringir.) hlýtur hún að vilja tryggja að stofninn hrynji ekki undan álögum. Mér skilst að magnið sé að dragast saman um u.þ.b. 7% á milli ára. Það er líka áhyggjuefni, það er einungis vegna þess að verðið er orðið allt of hátt.