139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

eldsneytisverð.

[10:38]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Í þeirri endurskoðun sem fara mun fram á vegum hæstv. fjármálaráðherra er alveg full ástæða til að skoða heildarmyndina og sjá hvaða áhrif hækkanirnar hafa haft á magnið, eins og hv. þingmaður nefnir, hvort fólk er farið að draga verulega úr akstri út af háu bensínverði. Það má vel vera og menn verða að skoða málið í heildarsamhengi. Ég hvet til þess að það verði gert og það verður örugglega gert í þeirri nefnd sem skoða mun málið. En það er ekki hægt að lifa með því að gjaldið sveiflist fram og til baka, að láta krónutölur og annað miðast við heimsmarkaðsverð og sveiflur í því með einhverri tímabundinni lækkun. (Gripið fram í.) Hvað ef heimsmarkaðsverðið hækkar stuttu eftir að við höfum lækkað gjaldið miðað við krónutölu o.s.frv.?

En ég tek undir að við skulum skoða heildarmyndina. Og af því að þingmaðurinn grípur fram í „2006“ hvet ég hann til að bera saman (Forseti hringir.) aðstæðurnar árið 2011 og 2006 (Gripið fram í.) þegar ríkiskassinn var yfirfullur af peningum og skatttekjum, þá voru talsvert betri aðstæður til að lækka bensínverðið (Forseti hringir.) en núna. (Gripið fram í.)