139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

málaferli um skipulag Flóahrepps.

[10:49]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Hér er þingmaðurinn að vísa til þeirra gagna sem voru birt á vef umhverfisráðuneytisins í gær þar sem ég óskaði eftir því að öll gögn varðandi þetta mál yrðu birt og það umfram lagaskyldu, þannig að það liggi fyrir.

Það er rétt sem þarna kemur fram að ríkislögmaður taldi minni líkur en meiri fyrir því að mál ynnist fyrir Hæstarétti, það mál sem þarna var um að ræða. Hins vegar var það svo að dómur héraðsdóms gaf ekki skýra línu um það í hvaða tilvikum sveitarfélögum væri heimilt að fá greiddan kostnað vegna gerðar skipulags í sveitarfélaginu og sveitarfélögin stóðu frammi fyrir því eftir sem áður að þurfa að leggja mat á það í hvert skipti hvort með slíkri greiðsluþátttöku væri réttaröryggi íbúa stefnt í hættu.

Það var því að mínu mati fullkomlega eðlilegt að láta reyna á túlkunaratriði fyrir báðum dómstigum til að fá endanlega niðurstöðu í þessu álitamáli um túlkun lagaákvæða til að eyða óvissu. Trausti Fannar Valsson, lektor í stjórnsýslurétti, segir í Fréttablaðinu 21. febrúar sl., með leyfi forseta:

„Að láta reyna á slíkt fyrir dómstólum er á engan hátt ómálefnalegt af hendi stjórnvalda. Í flestum tilfellum er hins vegar mjög fjarlægt að ráðherra beri lagalega ábyrgð á slíku nema talið er að ráðherra hafi misbeitti valdi sínu með því að knýja á um einhverja meðferð máls fyrir dómstólum.“

Það var ekki um það að ræða þarna heldur að fá lagalegri óvissu eytt.