139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

nýtt mat skilanefndar Landsbankans.

[10:59]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er hægt að staðhæfa það að óvissa um endurheimtur úr eignasafninu hefur farið minnkandi með tímanum. Bilið milli skuldbindinganna og þess sem líklegt er að fáist upp í þær hefur minnkað. Þetta vitum við. Menn geta haft áhyggjur af vaxtareikningi af einstökum afborgunum vegna þessa en það eru þó ekki rök fyrir því að fresta úrlausn málsins frekar og hætta á vaxtagreiðslur á síðari stigum ef dómur gengur okkur í óhag.

Í grunninn snýst þetta mál um það hvort við viljum meta hagsmunina með þeim hætti að það skipti okkur máli að komast úr þeirri kyrrstöðu sem hv. þingmaður, formaður Framsóknarflokksins, lýsti áðan (Gripið fram í.) og sagði að einkenndi atvinnulífið í landinu, mikið til vegna þess (Gripið fram í.) að okkur vantar tækifærin til að brjótast út úr kyrrstöðunni og skapa nýja von, ný tækifæri (Forseti hringir.) og að hjálpa fyrirtækjum til að skapa ný störf. Það er mikilvægasta (Forseti hringir.) verkefnið okkar núna og það eru skilaboðin sem við getum sent út í samfélagið með því að taka þá ákvörðun að kjósa frekar (Forseti hringir.) að ljúka þessu máli núna en að fresta því og fresta og fresta, okkur sjálfum fyrst og fremst til tjóns. (Gripið fram í: Þú hlýtur að vera að grínast.)