139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

þjóðgarðar.

[11:00]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Sú spurning er mjög ofarlega í hugum almennings í þessu landi nú um stundir fyrir hverja þjóðgarður sé, hverjir eigi að hafa afnot af honum. (Gripið fram í.) Miðað við hvernig umræðan hefur verið liggur við að maður geti ályktað sem svo að jafnvel Þjóðverjar eigi varla inngöngu inn í þjóðgarða Íslands, sérstaklega því sem lýtur að Vatnajökulsþjóðgarði. Í kjölfar þess að hæstv. umhverfisráðherra staðfesti tillögu stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs um verndaráætlunina hafa vaknað mjög harðar umræður meðal helstu hagsmunaaðila, svokallaðra. Ég vil nú undirstrika að ég hef ákveðinn fyrirvara á orðinu hagsmunaaðilar. Ég tel miklu nær að tala almennt, þegar um það er að ræða, um almenning í landinu frekar en að flokka einhverjar grúppur niður í svokallaða hagsmunaaðila. Hvað um það. Ég minnist þess mjög þegar umræða var hér ekki fyrir mjög löngu um ákvörðun hæstv. umhverfisráðherra sem laut að skipulagi Flóahrepps að þá réttlætti hæstv. ráðherra viðbrögð sín við því máli með þeim hætti að hún hefði orðið vör við gríðarlegan stuðning við þessa ákvörðun sína og stóð mjög keik hér í ræðustóli og barðist fyrir þeirri niðurstöðu.

Nú háttar svo til að velflestir þeirra fulltrúa félagasamtaka og ótal aðila í þjóðfélaginu sem hafa nýtt þetta svæði til útivistar, afþreyingar, eru meira og minna allir kolvitlausir, svo vægt sé til orða tekið, sárir, svekktir og reiðir. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort það sé tilviljun að svo hátti til, með hvaða hætti samráð við þessa aðila hafi verið háttað og vildi gjarnan heyra skoðanir hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) á því máli.