139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

framkvæmdir í Þingeyjarsýslu í ljósi sameiginlegs umhverfismats.

[11:19]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég þakka hv. málshefjanda frumkvæðið að þessari umræðu og lýsi yfir sérstakri ánægju með orð hæstv. iðnaðarráðherra um að hún telji mjög brýnt að ráðast í myndarlega uppbyggingu á því svæði sem hér um ræðir. Sérstaklega fagna ég þeirri viðleitni sem birtist í orðum hennar um að það væri útlit fyrir að á morgun næðust samningar um það verkefni sem um er rætt þannig að ég tel fulla ástæðu til þess (Iðnrh.: Ég sagði …) að fagna því sérstaklega.

Ég vil þó á sama tíma hryggja hv. málshefjanda með því að lítið og sætt eða eitthvað annað dugar ekki til uppbyggingar á Húsavík. Þessi orð hv. málshefjanda benda til þess að hann hafi ekki snefil af þekkingu á innviðum þessa svæðis, (Gripið fram í: Ha?) þótt ekki væri nema það eitt að það þarf að lágmarki 250 megavatta orkunotanda á Húsavík til að standa undir kostnaðinum við það að endurnýja línuna þar niður eftir ofan frá orkusvæðinu. Mér finnst gæta mjög mikils misskilnings í því að hið svokallaða sameiginlega mat hafi verið alveg frábært. Það var tóm della, vitleysa, sett fram eingöngu til að bregða fæti fyrir þetta verkefni. Það er ekki sameiginlegt mat fyrir þetta verkefni sem tekur til átta stórra þátta þegar fjórir þeirra eru skildir út undan. Hafnarframkvæmdir, vegaframkvæmdir, Bjarnarflag og Gjástykki eru ekki inni í þessu sameiginlega mati. Svo ræða menn þetta hér eins og þetta sé einhver allsherjarlausn og frelsun.

Á sameiginlegum fundi íbúa og þáverandi umhverfisráðherra, Þórunnar Sveinbjarnardóttur, í ágúst, þar var líka þáverandi formaður iðnaðarnefndar Alþingis, Katrín Júlíusdóttir, núverandi hæstv. iðnaðarráðherra, lýstu báðar, þessir fulltrúar ríkisvaldsins, því yfir að þetta þýddi einnar viku töf á verkefninu. Hver er raunin? Við erum ekki farin að sjá framan í það (Forseti hringir.) enn þá.