139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

framkvæmdir í Þingeyjarsýslu í ljósi sameiginlegs umhverfismats.

[11:33]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Hér á sér stað mjög sérstök umræða. Menn tala um hókus-pókus og að menn megi ekki fara fram af einhverju hugsunarleysi eins og menn hefðu fengið einhverjar hugmyndir bara í gær um atvinnuuppbyggingu á norðausturhorni landsins.

Það er búið að vinna að þessu máli um áraraðir og Þingeyingar hafa staðið mjög framarlega og eru til fyrirmyndar þegar kemur að undirbúningi að þessum framkvæmdum. Það er búið að verja mörgum milljörðum í rannsóknir á þessum svæðum. Svo koma menn hér upp og segja að þetta sé eitthvert hugsunarleysi, að menn séu að flana að einhverju. Menn verða náttúrlega að kynna sér hvað hefur átt sér stað í rannsóknum á þessu svæði til atvinnuuppbyggingar á undangengnum árum.

Síðan tala menn um ferðaþjónustuna og það er mjög gott og ég er alveg einlægur stuðningsmaður þess að við höldum áfram að styðja við og efla hana. En það hlýtur eitthvað meira að mega koma á svæði eins og norðausturhorn landsins. Eins og ég hef sagt áður er búið að vinna gríðarlega mikla vinnu við það að skapa nokkur hundruð störf á þessu svæði. Menn tala um að 14 þúsund Íslendingar séu án atvinnu, og þurfum við þá ekki að fara að blása lífi í efnahagslíf þjóðarinnar að nýju? Þurfum við ekki að hafa þor til að taka ákvarðanir? Ég fordæmi það enn og aftur að menn komi upp og hæli sér af því að það hafi verið farið í sameiginlegt mat vegna þess verkefnis sem hefur tafið framgang þess um tvö ár, tvö mjög dýrmæt ár. Ég hvet þá hv. þingmenn sem koma hér upp og tala um hugsunarleysi og hókus-pókus að fara á þetta svæði, kynna sér innviðina og kannski síðast en ekki síst kynna sér allt það góða og vandaða undirbúningsstarf sem þarna hefur verið unnið. Sá sem hér stendur hefur gert það og margir aðrir, m.a. þingmenn kjördæmisins, og ég hvet hæstv. iðnaðarráðherra (Forseti hringir.) til að standa ekki í vegi fyrir þessari uppbyggingu heldur hvetja þetta starf áfram enda er það mikilvægt, ekki bara (Forseti hringir.) fyrir Þingeyinga heldur þjóðina alla. [Kliður í þingsal.]