139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

framkvæmdir í Þingeyjarsýslu í ljósi sameiginlegs umhverfismats.

[11:35]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Merði Árnasyni, málshefjanda að þessari umræðu, fyrir umræðuna og taka undir mál hans sem mér finnst flutt af skynsemi og sannfæringu. Ég er hlynnt skynsamlegri nýtingu á jarðvarma, en við verðum að hafa í huga að nýting jarðhitaauðlindarinnar getur verið sveiflukenndari en nýting vatnsafls og ég tel miklu skynsamlegra að fara í smærri verkefni sem eru þó jafnvel stundum mannaflsfrekari en álver. Ég hef ekkert á móti álverum en mér finnst ekki skynsamlegt að geyma öll eggin í sömu körfunni. Mitt mat er að nú þegar séu þau orðin nægilega mörg.

Möguleikarnir í því sem málshefjandi kallaði litlu, sætu stóriðjuna eru ótal margir en stundum finnst mér eins og menn vilji síður skoða þá af fullri alvöru því að þeir geti tekið orkuna frá enn einu álverinu og að álverin eigi alltaf að hafa allan forgang á orku. Hér verðum við að leggja áherslu á sjálfbæra nýtingu, eins og hæstv. umhverfisráðherra Svandís Svavarsdóttir benti á, og halda áfram að hafa augun opin fyrir öllum möguleikum.