139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

framkvæmdir í Þingeyjarsýslu í ljósi sameiginlegs umhverfismats.

[11:39]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að það væri lag að hafa umræðuna um þetta mál lengri næst þegar hún verður vegna þess að mönnum liggur fjölmargt á hjarta og margt áhugavert hefur komið fram. Ég er virkilega ánægð með þessa umræðu vegna þess að það er augljóst að þingmenn eru vel inni í þessu máli og það er líka samstaða hér inni um atvinnuuppbyggingu fyrir norðan. Það er samstaða hér inni um að nýta fyrir norðan orkuna sem finnst fyrir norðan. Það eru verulega góðar fréttir fyrir Húsvíkinga og nærsveitarmenn vegna þess að Landsvirkjun beinir nú sjónum sínum skýrt að þessu svæði. Næsta sumar verða rannsóknarframkvæmdir og verkefni fyrir tæpa 2 milljarða ofan á þá tæpu 12 sem þegar hafa verið lagðir í verkefnið. Þeir hafa jafnframt lýst skýrum vilja sínum til að selja orkuna inn á svæðið og eiga núna í viðræðum við sex til átta aðila um möguleg kaup á þessari orku. Það hljóta að vera góðar fréttir og ég held að það gagnist ekki nokkrum manni að fara í djúpa umræðu um það hvað hefur valdið töfum.

Það er líka hægt að fara yfir það, virðulegi forseti, hvað fulltrúar Alcoa sögðu í iðnaðarráðuneytinu haustið 2008, að ákvörðun yrði ekki tekin fyrr en eftir fjögur, fimm ár. Þau fjögur, fimm ár eru ekki einu sinni liðin. (TÞH: Það á eftir að …) Það má fara fram og til baka í því en við skulum hafa það á hreinu, hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson, að við hér, sú sem hér stendur og ég veit að allir sem töluðu hér í dag, erum á því máli að við ætlum að skila þessu verkefni í höfn. Við ætlum að gera það með skynsamlegum hætti (Gripið fram í.) og við þurfum að horfa til jafnvægis milli orkuöflunar og atvinnuuppbyggingar, hver og hvað og hvaða stærð. Hvort það verða margir eða einn skiptir mig engu máli svo lengi sem farið verður eftir því meginmarkmiði að það sé jafnvægi milli orkuöflunarinnar og þess hvernig byggt er upp á (Forseti hringir.) svæðinu. Við eigum að hætta að vera endalaust að ræða um einstaka fyrirtæki og fara saman í að styðja við þann stað sem verkefnið er komið á sem eru virkar viðræður (Forseti hringir.) við kaupendur. Það mun, virðulegi forseti, skila okkur því að það verður innan tíðar myndarleg atvinnuuppbygging fyrir norðan og því hljótum við öll að fagna.