139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[11:51]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ákaflega málefnalega ræðu, og sérstaklega það sem hann sagði um Hæstarétt. Ég held að það hafi sömuleiðis verið ákaflega þýðingarmikið.

Ég er sammála hv. þingmanni um að frá sjónarhóli þeirra sem vildu fara þessa stjórnlagaþingsleið í upphafi hefði að sjálfsögðu verið miklu rökréttara og eðlilegra að ganga til verka eins og hv. þingmaður lagði til, að málið yrði undirbúið að nýju frá byrjunarreit og ákveðið að hefja þá almenna kosningu til stjórnlagaþings þar sem menn gætu gefið kost á sér að nýju.

Ég tel hins vegar að við getum lært ýmislegt af þessari kosningu. Það er enginn vafi í mínum huga að þetta var mjög eitruð blanda. Persónubundið kjör þar sem kosið var á grundvelli þess að landið væri eitt kjördæmi leiddi m.a. til þess að það varð mjög mikið misvægi. Við sáum að landsbyggðin átti tæplega fulltrúa á stjórnlagaþinginu og ég held að við getum öll verið sammála um að það sé ekki mjög skynsamlegt. Ég spyr þess vegna hv. þingmann: Yrði sú leið farin sem hann leggur til, teldi hann ekki nauðsynlegt þá að gera (Forseti hringir.) ýmsar breytingar, t.d. því að kosið yrði í kjördæmum til þess m.a. að tryggja eðlilega dreifingu fulltrúa á stjórnlagaþingið?