139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[11:53]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það sem var ógilt var kosningin sjálf. Þess vegna tel ég að út af fyrir sig sé nægilegt að endurtaka kosninguna sjálfa með þeirri umgjörð sem þingið setti um hana. Ég er heldur ekki viss um að kjördæmaskipunin í kosningunni hafi ráðið því að ekki voru fleiri fulltrúar af landsbyggðinni. Kannski endurspeglar það bara að varðandi stjórnarskrána eru ekki sérstakar átakalínur milli landsbyggðarinnar og þéttbýlisins eða að einstakir landshlutar hafi ekki séð að þeir ættu einhverja sérhagsmuni sem þeir þyrftu sérstaklega að tryggja sinn fulltrúa fyrir í þessu vali.

Ég útiloka auðvitað ekki, ef það mætti verða til samkomulags, að gerðar yrðu einhverjar breytingar á fyrirkomulaginu. Ég held að í öllum aðalatriðum hafi stjórnlagaþingsumgjörðin verið góð og falið í sér það mikilvæga að þessi hópur hefði fengið — og á að fá — beint umboð frá kjósendum í almennri atkvæðagreiðslu.