139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[11:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel brýna nauðsyn á því að breyta stjórnarskránni, bara svo það komi fram, og ég held að flestir þingmenn séu sammála því, minn þingflokkur er líka sammála því. En það sem mér finnst slæmt er að 79. gr. skuli vera þannig að þjóðin greiði í rauninni aldrei sérstaklega atkvæði um stjórnarskrárbreytingarnar. Þegar tillaga að breytingu á stjórnarskrá kemur frá stjórnlagaþingi eða hvaða aðila sem er eru þingmenn bundnir af sannfæringu sinni. Þeir mega ekki taka við skilaboðum frá kjósendum sínum eða öðrum aðilum. Þeir verða að gera breytingar á þessari stjórnarskrá ef þeir telja það nauðsynlegt og hunsa þar með vilja kjósenda vegna þess að sannfæringin er sterkari og þeir verða að fara að henni. (Gripið fram í: En ef þeir hafa sömu sannfæringu og kjósendur?) Ég kalla það lýðfylgi þegar þingmenn fylgja sannfæringu kjósenda og það er ekki það sama að vera leiðtogi og að vera lýðtogi, það er annað, sá sem leiðir þjóðina áfram er ekki sá sami og sá sem fylgir þjóðinni sitt á hvað, eftir því hvernig vindar blása. Það leiðir til stefnulausra stjórnmála.

Ég tel mjög mikilvægt að menn fylgi sannfæringu sinni og þessi tvö ákvæði í stjórnarskránni, ákvæði um að þingmenn fylgi sannfæringu sinni og 79. gr., gera það að verkum að þjóðin mun aldrei greiða atkvæði um stjórnarskrá. Þess vegna tel ég mikilvægt að fyrst verði 79. gr. breytt, við næstu alþingiskosningar taki breytingin gildi og viku seinna geti þjóðin farið í þjóðaratkvæðagreiðslu, eða mánuði seinna, um þá allsherjarbreytingu sem menn ættu að gera. Ég tel mjög mikilvægt að þjóðin hafi tækifæri til að greiða endanlega atkvæði um stjórnarskrána.