139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[12:02]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þykir leiðinlegt að þurfa aðeins að gera athugasemdir við orð hv. þm. Helga Hjörvars því að ég tel að hann hafi bæði í sinni síðustu ræðu og eins fyrr haft tilhneigingu til að oftúlka ákveðin ummæli félaga minna, hv. þm. Péturs H. Blöndals og Einars K. Guðfinnssonar. En nóg um það.

Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir ræðuna. Mér fannst hún málefnaleg og skýr að mörgu leyti. Við hv. þm. Helgi Hjörvar erum ekki sammála um það grundvallaratriði hvort endurskoðun stjórnarskrárinnar eigi fyrst og fremst að vera á forræði Alþingis eða hvort þar eigi að koma að einhver önnur kjörin samkoma. Í ljósi fyrri afstöðu hv. þm. Helga Hjörvars er sú afstaða hans sem fram kemur gagnvart þessari tillögu (Forseti hringir.) í samræmi við fyrri afstöðu.

En ég vildi spyrja hv. þingmann hvort hann teldi að gera þyrfti róttækar breytingar á löggjöfinni um stjórnlagaþing ef kosið yrði að nýju.