139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[12:07]
Horfa

Flm. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það kemur mér nokkuð á óvart að hv. þm. Helgi Hjörvar undrist og virðist jafnvel óttast að uppi sé og verði ágreiningur um breytingar á stjórnarskránni og aðferðina til að gera þær. Það hefur þetta þing mátt búa við um marga áratugi og sér ekki fyrir endann á því, því miður.

Ég kem hingað upp til að gera athugasemdir við þau orð hans að við sem flytjum þessa tillögu séum að leggja eitthvað á borð sem í okkar huga sé næstbesti kosturinn og það sé ekki nógu gott. Í okkar huga sem flytjum þetta mál, í huga okkar fjögurra fulltrúa fjögurra þingflokka í samráðshópnum, er þetta besti kosturinn. Ég tek það fram svo það fari ekkert á milli mála. Við segjum í greinargerðinni að eftir að hafa vegið og metið kosti og galla allra mögulegra og ómögulegra leiða til að bregðast við úrskurði Hæstaréttar, sem menn eru sammála um að þoli ekki miklu lengri bið, hvorki fyrir stjórnvöld né Alþingi, sé það okkar niðurstaða (Forseti hringir.) að þetta sé besti kosturinn.