139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[12:23]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir ágætt innlegg. Hann ræddi mjög margt og mig langar til að spyrja hvort hann telji nauðsyn á að breyta stjórnarskránni. Ég heyrði það reyndar á orðræðu hans. Vill hann breyta henni þá í heild sinni eða einstökum greinum? Um það snýst málið. Telur hann að það eigi að leggja fram frumvarp að heilli einu stykki stjórnarskrá eða á að greiða atkvæði um einstakar greinar sem gætu hugsanlega leitt til þess að það yrði mjög undarlegt plagg þegar upp er staðið?

Hv. þingmaður ræddi nokkuð um auðlindir og ég vil gjarnan fá meiri umræðu um þær, í fyrsta lagi: Hvað er auðlind? Við sjáum að það vex gras á túnum, reyndar þarf áburð til. Grasið er þurrkað og notað sem hey og á því lifir ýmiss konar búfénaður. Má ekki líta á það sem auðlind af því að þar sprettur upp auður úr nánast engu? Það þarf reyndar vinnu til og hyggjuvit.

Orka úr ánum sem við köllum í dag auðlindir var algjörlega óþekkt fyrir 150 árum og árnar voru til bölvunar. Þær skiptu sveitum í tvennt því að þá voru ekki til brýr eða hyggjuvit til að búa þær til. Sjávarútvegurinn var heldur ekki auðlind lengi framan af þótt hann hafi verið stundaður. Hann kostaði óhemju mörg mannslíf og ég hef bent á að það var í fyrsta skipti árið 2008 sem enginn maður fórst á sjó í allri Íslandssögunni. Sjávarútvegurinn var ekki auðlind, enda var þjóðin sárafátæk.

Spurningin er: Hvað felst í þessu orði, auðlind? Er það tíðnisvið eða hvað er eiginlega auðlind? Af því að hv. þingmaður vill setja þetta inn í stjórnarskrá verður hann að vita hvað hann er að tala um. Ég tel reyndar ágætt að setja inn ákvæði um 65 ára nýtingarrétt á auðlindum, en það þarf að ræða það.