139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[12:25]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kemur einmitt inn á mjög merkilega punkta í þessu andsvari sínu.

Í fyrsta lagi spyr hann um einstakar greinar eða heild. Ég vildi sjá einstakar greinar, ég ætla reyndar ekki að telja þær upp hér, en það er meginstefið hjá mér. Hvort það er framkvæmanlegt eða ekki er nokkuð sem við þurfum þá að ræða. Ég tel ekki að stjórnarskráin eins og hún lítur út í heild sinni sé ónýtt plagg, alls ekki.

Hvað er auðlind? Þegar ég tala um auðlind í þessu tilviki er ég að tala um fiskinn í sjónum, orkuna í jörðinni og þess háttar. Þetta er nefnilega samt mjög mikilvægur punktur. Við þurfum vitanlega að skilgreina hjá okkur hvað auðlind er. Núna hefur komið í ljós í svari við fyrirspurn hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur að það er ekki ljóst hvað er skilgreint sem auðlind. Í viðræðum núna við Evrópusambandið, þegar farið er að ræða um sjávarútvegsauðlindina, landbúnað og ýmislegt annað, kemur upp þessi spurning: Eru ekki fleiri auðlindir sem við þurfum að skilgreina í þessum viðræðum? Er það grasið sem hv. þingmaður benti hér á? Er það vindurinn á Íslandi? (Gripið fram í: Allar náttúruauðlindir.) Allar náttúruauðlindir, það er hárrétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni. En þetta þarf að skilgreina og við þurfum að skilgreina hvað eru auðlindir.

Það kann að vera og er líklega þannig að eftir því sem landið og þjóðin þroskast og þróast geta orðið til nýjar auðlindir, eins og hv. þingmaður benti réttilega á. Þá hljótum við að sjálfsögðu að þurfa að horfa til þess að ef hér koma upp nýjar auðlindir, segjum t.d. gull eða eitthvað slíkt sem menn vilja gjarnan meina að sé hérna á Íslandi, gætum við þurft að horfast í augu við það að taka það þá upp og setja inn í stjórnarskrá Íslands, (Forseti hringir.) ef við finnum eitthvað nýtt sem við gerum okkur ekki grein fyrir núna en viljum síðar skilgreina sem auðlind sem ríkið á, eða þjóðin.