139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[12:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að þarna var um marga mjög hæfa einstaklinga að ræða en það gerðist bara hjá mér að ég missti alla yfirsýn yfir þessa hæfileika. Ég er ekki viss um að ég hafi valið þá einstaklinga sem ég hefði hugsanlega valið ef ég hefði haft meiri upplýsingar um þá. Eftir að hafa rætt við þá og annað slíkt, fengið skoðanir þeirra á stjórnarskránni og hvað þeir vildu gera hugsa ég að ég hefði valið allt, allt annan hóp. Þetta er vandinn við svona mikinn og stóran hóp sem auk þess hafði ekki neina stefnu, það var ekki kynnt nein stefna. Sumir vilja ekki breyta stjórnarskránni, ekki neitt, sumir vilja setja inn auðlindaákvæði, aðrir vilja breyta mannréttindakaflanum o.s.frv. Þetta kom ekkert fram, hver var stefna viðkomandi einstaklinga sem voru svona hæfir í þessum málum.

Svo er það með Hæstarétt. Nú skulum við segja að einhver einstaklingur eigi í deilum við annan einstakling eða ríkið um ákveðið mál sem er ágreiningur um og það eru ekki nein bein lagarök fyrir því eða neitt og Hæstiréttur dæmir svona eða svona. Svo komum við hv. þm. Þór Saari og setjum lög á Alþingi um að annar aðilinn skuli halda sínum rétti sem Hæstiréttur dæmdi af honum. Það er ekki bannað. Það er ekki bannað að setja lög um það sem var ekki lagagrunnur fyrir, það er ekki bannað að setja lög um að þessi eða hinn haldi rétti sínum gagnvart ríkinu og valdi fjárútlátum eins og þetta gerir ráð fyrir. En ég er hræddur um það að Hæstiréttur setji ansi mikið niður við svoleiðis aðgerðir.