139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[12:50]
Horfa

Flm. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þór Saari fyrir þá stuðningsyfirlýsingu sem kom fram við þá þingsályktunartillögu sem við hér ræðum. Ég hef eins og hv. þingmaður tekið eftir því að jafnvel þeir sem mæla gegn þeirri leið sem við leggjum til, sem er skipan stjórnlagaráðs, jafnvel þó að menn séu því ekki sammála vilja menn þyngja pundið í stjórnlagaráðinu með því að það fái beinar heimildir eða að þannig sé frá málum gengið að tillögur þess fari beint í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir Alþingi áður en frumvarpið sjálft kemur fyrir þingið.

Ég ræddi þetta aðeins í framsögu minni og það er tekið á þessu í greinargerð með þingsályktunartillögunni. Það var niðurstaða okkar sem flytjum þetta mál og fjórmenninganna í samráðshópnum að hrófla ekki við því orðalagi sem samkomulag náðist um í allsherjarnefnd í fyrra. En málið mun væntanlega fara til allsherjarnefndar þegar hinn langi mælendalisti sem við nú horfum fram á hefur verið tæmdur. Ég fagna reyndar þeim mikla áhuga sem er á þessu máli og vænti þess að það verði góð og efnisleg umræða um málið hér og áfram í allsherjarnefnd því að það var allsherjarnefnd sem lagði upp mjög vel hvaða leiðir koma til álita í þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvarp til stjórnarskrár innan marka stjórnarskrárinnar sem við nú búum við. Ég var sátt við þá niðurstöðu sem þar var fengin, að það væri stjórnlagaþingið þá sem ætti að ákveða það eða koma með tillögu þar um, en við sjáum hvað hv. allsherjarnefnd gerir í þessari stöðu núna.