139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

ástandið í arabalöndunum og ábyrgð vestrænna ríkja.

[13:42]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu, þakka hv. málshefjanda fyrir hana en vil þó þakka hæstv. utanríkisráðherra sérstaklega fyrir ræðu hans sem mér þótti góð. Ég verð að segja að ég er í flestum atriðum sammála hæstv. utanríkisráðherra og fagna því að hann talar svo afdráttarlaust um þetta mikilvæga mál.

Ég vil ekki gera lítið úr ábyrgð vestrænna ríkja og það er sjálfsagt að draga hana fram sem innlegg í umræðuna vegna þess að ábyrgð þeirra er mikil, ábyrgð þeirra ríkja Evrópusambandsins og Rússlands sem eru helstu vopnasöluaðilar til ríkja eins og Líbíu er sannarlega mjög mikil. Þessi vopn, eins og bent hefur verið á, eru notuð gegn eigin fólki í þessum löndum.

Við megum bara ekki í þeirri umræðu færa okkur frá kjarna málsins, þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir í dag, í einmitt þessu landi. Og ég ætla að einskorða mál mitt við Líbíu vegna þess að ástandið þar er skelfilegt og ástandið þar er frábrugðið því sem er að gerast annars staðar á þessu svæði.

Lykilatriði í mínum huga, og þess vegna fagna ég yfirlýsingu hæstv. utanríkisráðherra, er einmitt að svara þeirri spurningu sem íslensk stjórnvöld gætu staðið frammi fyrir með mjög skömmum fyrirvara, t.d. á vettvangi Atlantshafsbandalagsins: Hvernig á að bregðast við? Hvernig á að koma því fólki til hjálpar sem er að berjast fyrir friði og gegn einræði og gegn einokun, gegn kúgun í sínu landi?

Þetta kann að vera stór spurning innan Atlantshafsbandalagsins en mér heyrist á málflutningi málshefjanda og svari hæstv. utanríkisráðherra að þetta gæti líka verið stór spurning sem þarf að svara innan ríkisstjórnarinnar mjög fljótlega. Hvernig mun ríkisstjórnin sem heild bregðast við þessu? Þetta er ekki mál sem hægt er að skipa starfshóp um. Mun hv. málshefjandi (Forseti hringir.) styðja ákvörðun, hugsanlega ákvörðun hæstv. utanríkisráðherra, (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) sem hann vísaði til að hann gæti tekið hér ef til þess kæmi, mundi ríkisstjórn Íslands heils hugar (Forseti hringir.) standa með almenningi í Líbíu eða með Rússum, Kínverjum eða Frökkum ef það væri ályktað gegn þeim í öryggisráðinu?