139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

ástandið í arabalöndunum og ábyrgð vestrænna ríkja.

[14:00]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir skýr svör við þeim vangaveltum sem ég bar fram og ýmsum öðrum sem hafa komið fram í umræðunni. Það er mjög eðlilegt að menn velti sérstaklega fyrir sér spurningunni: Hvað eiga vesturveldin að gera ef ástandið heldur áfram með þeim hætti sem við höfum horft upp á allra síðustu dagana? Ég held að um það sé enginn ágreiningur hér að við hljótum alltaf að standa með baráttunni fyrir lýðfrelsi, mannréttindum, jafnrétti og friði eins og ég talaði um áðan. Við eigum að standa með almenningi í þessum löndum, Líbíu núna sérstaklega, og það vakna að sjálfsögðu spurningar eins og hér hafa komið fram í umræðunni: Hafa vesturveldin stundum verið of sein á sér? Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir nefndi í því sambandi t.d. Rúanda.

Kann að vera að ástæðan fyrir því að vesturveldin tóku seint við sér þar hafi einmitt verið sú að þar voru ekki sömu viðskiptahagsmunir og á ýmsum öðrum stöðum? Írak er dæmi. Kann að vera að slík sjónarmið ráði för þegar vesturveldin taka ákvörðun um það í sínum ranni hvort þau ætla að grípa inn í ástand eins og það sem er að skapast í Líbíu og annars staðar í nágrannaríkjunum? Ég er þeirrar skoðunar að allar slíkar ráðstafanir verði að gerast undir hatti Sameinuðu þjóðanna og á grundvelli stofnsáttmála þeirra þar um. Það er mín grundvallarafstaða í þessu máli. Annað vil ég ekki segja um það sérstaklega.

Ég vek máls á þessu vegna þess að í stóra samhenginu er það þannig að hernaðarhyggjan hefur reynst ónothæf nema í þágu vígvæðingar og kapítalískrar hnattvæðingar og valdið skaða og þjáningum víða um heim. Það er þetta sem mér finnst mikilvægt að koma á framfæri, að það séu ríkir almannahagsmunir að hernaðarhyggjan víki og að við taki stefna sem teflir fram félagslegri hnattvæðingu (Forseti hringir.) sem byggir á baráttu fyrir mannréttindum, kvenfrelsi, ábyrgri og sjálfbærri stefnu í umhverfis- og náttúruverndarmálum, friði og afvopnun og gegn fátækt og félagslegu ranglæti, misskiptingu og (Forseti hringir.) hungursneyð.