139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

lengd þingfundar.

[14:14]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur. Við erum með nokkuð langa dagskrá í dag, vitum að það eru nefndastörf í næstu viku og það er kallað eftir því að mörg af þeim málum sem hér eru til umræðu komist einmitt til umfjöllunar í nefnd. Þannig hafa málin verið lögð upp.

Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, sem er nú horfinn úr þingsal, kallaði eftir því að einkum og sér í lagi um 4. dagskrármálið gæti farið fram heilbrigð umræða. Nú veit auðvitað hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, og ýmsir aðrir í Framsóknarflokknum ekki síst, að það getur oft orðið mjög heilbrigð umræða á kvöldin og inn í nóttina þegar þeir leggja sig fram [Hlátur í þingsal.] þannig að ég treysti því að það verði einmitt heilbrigð og góð umræða um þetta mál, jafnvel þó að fundur standi hér fram eftir kvöldi og þangað til dagskráin er tæmd. (Gripið fram í.)