139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[14:34]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson deilum svo sannarlega sömu skoðun í þessu máli. Þetta er niðurstaða Hæstaréttar og það var ekki bara einfaldur dómstóll sem þarna talaði, ekki fullskipaður, það voru sex hæstaréttardómarar sem komust að sömu niðurstöðu. Við þingmennirnir sem hér tölum deilum ekki bara þessari skoðun heldur er þetta almenn skoðun í samfélaginu og háskólasamfélagið er á þessari skoðun. Það vita það náttúrlega allir að fara verður að lögum en þá bendi ég í leiðinni á það að þessi ríkisstjórn fer fram með þeim hætti að hún er lögum æðri. Ekki fór hæstv. umhverfisráðherra eftir dómi Hæstaréttar og ekki dettur henni í hug að segja af sér þrátt fyrir að úrskurður hennar hafi verið dæmdur ógildur og meira að segja þáði hún ráðgjöf frá ríkislögmanni sem hvatti ráðherrann til að áfrýja ekki til Hæstaréttar, hún gerði það samt. Tapaði málinu í Hæstarétti, hún situr enn.

Ríkisstjórnin fer fram með málið eða fulltrúar þeirra afla sem nú ráða. Ekki ætla þeir sér að fara að lögum. Ríkisstjórnin ber ábyrgð á málinu. Hér er löggjafarsamkoman og hér er verið að setja lög. Lög eru til að fara eftir, lögreglan og dómstólar eru til þess að benda á afglöp og dæma í málum. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að ég veit ekki hvernig ríkisstjórnin ætlast til þess að borgarar landsins fari að lögum þegar það gerist margoft, nánast í sömu vikunni, á sama árinu — nú er þó bara byrjun mars — að sjálf ríkisstjórnin hunsar lög, hunsar niðurstöður æðsta dómstóls landsins. Þessi ríkisstjórn á að fara frá.