139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[14:36]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni. Það blasir við að þeir alþingismenn sem leggja til að farið verði á svig við niðurstöðu Hæstaréttar og hún að engu höfð geta ekki ætlast til þess að almenningur í landinu hlíti niðurstöðum Hæstaréttar í öðrum málum fyrst þeir ætla ekki að gera það sjálfir í þessu máli.

Hvað ætli yrði sagt ef Hæstiréttur Íslands ógilti kosningar til Alþingis, ef hópur manna mundi ákveða það að engu að síður skyldu þeir sem bestum árangri náðu í ógildri kosningu taka sæti á Alþingi sem starfaði út það kjörtímabil undir nýju nafni? Ég efast um að þeir hv. þingmenn sem standa að þessari tillögu hafi velt því fyrir sér hvaða fordæmi þeir eru að gefa til framtíðar.

Það blasir við, virðulegi forseti, að þessi tillaga, (Forseti hringir.) hvað sem mönnum finnst um stjórnlagaþingið, (Forseti hringir.) er svo slæm og svo illa ígrunduð að hana verður að fella.