139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[14:37]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sammála hv. þingmanni á ný, að sjálfsögðu fellum við þessa tillögu því að löggjafinn getur ekki farið fram með það að samþykkt verði tillaga sem fer í bága við úrskurð Hæstaréttar.

Raunverulega andstaðan í þessu máli er að hugmyndin með stjórnlagaþinginu var sú að slíta stjórnarskrárvaldið frá þessari svokölluðu stjórnmálaelítu, sem eru þingmenn, slíta það frá fjórflokknum, slíta það frá því fólki sem á að vera svo spillt sem situr á Alþingi, þetta er umræðan í samfélaginu. En, frú forseti, með þessari tillögu er verið að færa það vald að skipa þetta fólk undir okkar ákvörðun og þar með er þetta fólk orðið bundið stjórnmálaflokkunum. Ég er að rifja upp rök sem voru fyrir því að skipa þetta stjórnlagaþing.

Það er líka rétt að minna hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson á að tveir (Forseti hringir.) af þremur alþingismönnum sem flytja þessa tillögu sitja í allsherjarnefnd (Forseti hringir.) og mér finnst það mjög, mjög einkennilegt.