139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[14:40]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var nokkuð einkennileg ræða, hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur bregst ekki minni með það að ég sit í allsherjarnefnd og við sátum þar í fyrrasumar.

Auðvitað á Alþingi að vera með málið. Ég var að lýsa hér áðan kröfum utan úr samfélaginu, að slíta þyrfti öll tengsl við þessa stofnun vegna þess að þingmönnum væri ekki treystandi til að breyta stjórnarskrá. Ég tók að sjálfsögðu þátt í því að stjórnlagaþing mundi heyra undir Alþingi, skárra væri það nú, enda hefur Alþingi lokaorðið í málinu. Alþingi fer með stjórnskipunarvaldið samkvæmt stjórnarskrá sama hvort fólki líkar það betur eða verr.

Það hefði verið sama hvað hefði komið út úr stjórnlagaþingsvinnu, frumvarpið kæmi alltaf aftur til þingsins og hefði þá fengið þinglega meðferð, fengið þrjár umferðir með viðkomu í allsherjarnefnd, með ráðgjöf frá færum stjórnskipunarfræðingum. Það er búið að þyrla upp svo miklu ryki í þessu máli að fólk hefur týnt áttum. Ég er því að kynna þessa breytingartillögu sem ég talaði um áðan — að þessi sjö manna stjórnlaganefnd sem kosin var af þinginu skili þeim gögnum sem nú þegar eru til í tímasparnaði, í peningasparnaði til að stjórnlagaþingið þurfi ekki að fara upp í 1 milljarð, það er nóg að búið sé að henda 650 milljónum í það þó að ekki sé verið að bæta við 350 milljónum — vegna þess að við erum með stjórnskipunarvaldið.

Ríkisstjórnin getur fallið á morgun og ég vildi raunverulega óska þess að hún mundi gera það. Þá þurfum við þingmenn að vera reiðubúnir með frumvarp til laga að breyttri stjórnarskrá því að henni verður ekki breytt nema með samþykki eins þings, alþingiskosningum og samþykki nýs þings. Svo einfalt er það, þarna er málið og vinnum eftir því (Forseti hringir.) sem Hæstiréttur segir okkur þingmönnum og landsmönnum. (Forseti hringir.) Förum að lögum.