139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[15:04]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var talað um jafnræðisregluna í þessu sambandi og þá held ég að miklu nær sé að viðurkenna þá staðreynd málsins að samkvæmt úrskurði Hæstaréttar er stjórnlagaþing ógilt og ónýtt og það er búið að leggja það niður, það er úr sögunni. Þá þýðir ekkert að púkka upp á einhver ný leikklæði fram hjá úrskurði Hæstaréttar.

Í þeirri kosningu sem fór fram og var dæmd ógild var sorglegt að horfa á þá staðreynd að enginn landsbyggðarmaður, enginn maður utan höfuðborgarsvæðisins, fékk brautargengi inn á stjórnlagaþing. (Gripið fram í: Þrír.) Þrír af 25, (Gripið fram í: Já, …) nei, nei, það er allt í lagi að orða það þannig hérna. Þetta er bara sýndarmennska. Þetta er dónaskapur við fólkið í landinu (Gripið fram í: Kjósendur.) og sýnir að þessi litla þátttaka sem var í stjórnlagaþingskosningunni átti engan hljómgrunn hjá þjóðinni. Allt hefur þetta farið úrskeiðis og er ónýtt. Og maður púkkar ekki upp á ónýtan vef, klastrar ekki í hann bótum eða garneringum, maður hnýtir upp nýjan vef.

Auðvitað er þetta allt tómt tímahrak. Þetta er skjól fyrir ríkisstjórnina að fela sig á bak við, aðgerðaleysi að halda svona málum á lofti. Auðvitað á sjö manna nefndin, sem hefur verið í stjórnlaganefndarvinnunni, að skila þessu til Alþingis og það á að komast á flot og komast í umræðu en umfram allt á Alþingi að stýra þessu verki með hópi þingmannanefndar, með stjórnsýslufræðingum (Forseti hringir.) og t.d. 42 fulltrúum, almennum borgurum, úr öllum kjördæmum landsins.