139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[15:07]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það gleður mig mjög að heyra að hv. þm. Árni Johnsen tekur undir hugmyndir mínar með sjö manna nefndina því að ég ætla að leggja fram við þessa þingsályktunartillögu breytingartillögu sem gengur út á það.

Eins og ég fór yfir í ræðu minni áðan er stjórnskipunarvaldið hjá Alþingi. Um það erum við þingmaðurinn mjög sammála. Við þurfum að flýta þeirri vinnu og stjórnlaganefndin á að skila þeirri vinnu sem nú liggur fyrir hér til Alþingis. Þar erum við alveg sammála. Það sem þingmaðurinn minnti mig hins vegar á, ég datt akkúrat ofan í smámeðvirkni með ríkisstjórninni í fyrirspurn minni þegar ég spurði hvernig ætti að plástra þau mistök sem ríkisstjórnin stendur fyrir, er að vitaskuld eigum við að fara að úrskurði Hæstaréttar. Ég vorkenni samt pínu þessu fólki sem var platað til að taka þátt í þessari stjórnlagaþingskosningu því að jafnvel var vitað fyrir fram — eins og ég varaði við áður en kærur komu til Hæstaréttar — að það væri eitthvað mjög bogið við framkvæmd kosningarinnar. Vísa ég þar í morgunblaðsgrein sem ég skrifaði nokkru áður en kærur komu fram. Úrslitin voru þessi, kosningin var dæmd ólögleg.

Það sem hv. þingmaður fór hér líka yfir í andsvari við mig er akkúrat sú staðreynd að einungis þrír landsbyggðarmenn náðu kjöri inn á þetta stjórnlagaþing sem er búið að dæma ógilt, það er ávísun á þann kratisma sem ræður nú ríkjum í ríkisstjórninni, það að Samfylkingin hefur alltaf talað um að landið sé eitt kjördæmi. Þarna var þetta prófað í stjórnlagaþingskosningu, einn maður sama og eitt atkvæði, landið eitt kjördæmi, öll atkvæði skyldu talin á einum stað. Þetta er það sem ég kalla kratisma og er sótt til sósíaldemókrata á Norðurlöndunum og annars staðar í Evrópu, að breyta öllu fyrirkomulagi þannig að allt er einhvern veginn undir í einu og svo (Forseti hringir.) raunverulega gerist það að allt klúðrast. Allt klúðrast.