139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[15:22]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson talaði um að þingsályktunartillagan bæri keim af reddingu, eins og hann orðaði það. Ég vil spyrja hann á hvern hátt hún er redding.

Ég gluggaði í frumvarpið til laga um stjórnlagaþing. Fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytis áætlaði að stjórnlagaþingið mundi kosta 500 milljónir, ég gat ekki reiknað mig hærra. Nú liggur fyrir að stjórnlagaþingið kostar nú þegar 650 milljónir. Fullbúnar skrifstofur bíða, starfsfólk bíður og framkvæmdastjóri fyrir stjórnlagaþinginu, búið er að ráða í allar stöður. Þrátt fyrir að kærur væru komnar til Hæstaréttar hélt ríkisstjórnin ótrauð áfram, sem er náttúrlega mjög athyglisvert, ríkisstjórnin virðist halda að hún ráði yfir Hæstarétti.

Það liggur fyrir að endanlegur kostnaður, verði þingsályktunartillagan samþykkt, fari upp í 1.000 milljónir, 1 milljarð. Er ríkisstjórnin, með því að keyra málið áfram með þessum hætti, að redda sér frá því að þurfa að afskrifa áfallinn kostnað upp á 650 milljónir í ríkisreikningi? Hvert er mat þingmannsins á því?

Annað sem mig langar að spyrja þingmanninn um, hann lýsir því yfir að hægt sé að opna nefndarstarfið. Er ekki nægjanlegt, að mati hv. þingmanns, að fela málið í hendur þeirri sjö manna stjórnlaganefnd sem hefur raunverulega lokið störfum og átti að skila öllu því efni sem hún var búin að safna til stjórnlagaþings? Er ekki rétt að þeir sjö aðilar skili efninu til Alþingis í frumvarpsformi, málið fari til allsherjarnefndar og þá getur allsherjarnefnd kallað eftir álitsgjöfum og fengið umsagnir frá bærum aðilum sem hafa fullkomna yfirsýn og þekkingu á stjórnskipunarmálum? Ég minni þingmanninn líka á að almenningur getur alltaf skilað inn álitum til nefnda. (Forseti hringir.) Eigum við ekki bara að fela þessari sjö manna nefnd málið? Um það ætla ég að leggja fram breytingartillögu.