139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[15:24]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Málið er auðvitað redding í þeim skilningi að ríkisstjórnin var komin með mál í fangið sem hún réð ekki við. Hún kallaði til liðs við sig þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkum en engin niðurstaða kom úr því, aðeins niðurstaða þriggja þingmanna sem treystu sér til að leggja þetta mál fram. Sá fjórði sem daðraði við málið treysti sér ekki til að ganga alla leið. Þetta er þess vegna niðurstaðan, þetta er reddingin, vegna þess að menn komust einfaldlega ekki að neinni sameiginlegri niðurstöðu.

Þá var reynt að fara stuttu leiðina, búa til einhvers konar eftirmynd af stjórnlagaþingi sem er síðan kölluð stjórnlagaráð og er sérkennileg eftirlíking þar sem tilnefna á þá 25 sem ekki fengu kosningu. Ef þeir vilja það ekki eru einhverjir aðrir tíndir til og er alveg óljóst hvernig á að standa að því eftir því sem ég hef heyrt í umræðunni.

Hv. þingmaður bað mig að lesa í hug ríkisstjórnarinnar. Ég ætla bara að segja að ég treysti mér ekki til þess. Það er torráðin gáta sem ég ræð alveg örugglega ekki við.

Hv. þingmaður spurði líka hvort ég teldi ekki nægjanlegt að stjórnlaganefndin, sem hefur verið að störfum og mér skilst að sé að ljúka störfum, skilaði þessu til Alþingis. Kannski má segja að það sé nægjanlegt. Ég tel hins vegar, vegna þess að við viljum gjarnan treysta aðkomu almennings að stjórnarskrárendurskoðuninni, að skynsamlegt væri að gera það með þeim hætti sem ég var að tala um, halda opna fundi á vegum stjórnlaganefndarinnar, hafa gagnvirk samskipti við almenning o.s.frv. en síðan mundi sú niðurstaða, sú afurð, vera lögð fyrir Alþingi sem tæki afstöðu til málsins.