139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[15:37]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki haldið því fram og ég hygg að það séu svo sem ekki margir sem halda því fram að þingsályktunartillagan stefni beinlínis að lögbrotum, enda ætla ég ekki neinum hv. þingmanni það sem undirritað hefur stjórnarskrána. En málið snýst ekki um það. Málið snýst um hvort þetta sé skynsamleg aðferð við undirbúning að endurskoðun stjórnarskrárinnar.

Ég vitnaði í ræðu minni áðan til orða forseta lagadeildar Háskóla Íslands sem gagnrýndi málið mjög harkalega. Ég hafði ekki tíma til að vitna til annars prófessors við Háskólann í Reykjavík, Ragnhildar Helgadóttur, sem gagnrýnir málið sömuleiðis. Ég hefði t.d. talið það ómaksins vert fyrir tillöguflytjendur að þeir færu yfir það með lögvísum mönnum hvort þetta væri skynsamleg aðferð við undirbúning að endurskoðun stjórnarskrárinnar.

Hv. þingmaður spyr mig hvort ég sé óánægður með úrslit kosninganna. Ef hv. þingmaður spyr hvort ég hafi kosið alla þá 25 sem hlutu kosningu er það ekki svo. Ég kaus suma þeirra sem hlutu kosningu, aðra ekki. Þetta snýst ekki um það.

Ég tel stjórnlagaþingsleiðina reyndar óskynsamlega í sjálfu sér. Ég er á móti henni, það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, ég tel að aðrar leiðir séu bæði betri og skynsamlegri, ekki síst við þessar aðstæður, og fyrir því færði ég rök í ræðu minni áðan. (Gripið fram í.) En verði það hins vegar niðurstaðan, sem það þingmál sem hv. þingmaður er flutningsmaður að gerir ekki ráð fyrir, að kjósa til stjórnlagaþings, teldi ég að breyta þyrfti mjög reglunum um kosningar. Ég tel t.d. algert óráð að fara af stað með þá banvænu blöndu af persónukjöri og tillögunni um að landið verði eitt kjördæmi, að niðurstaðan yrði ekki líkleg til að skapa þá nauðsynlegu sátt um stjórnarskrá okkar sem við þurfum á að halda.