139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[15:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég fellst ekki alveg á það að einhverjir gangsterar hafi ekki farið að lögum. Ég held nefnilega að það muni því miður koma í ljós að í hlutabréfaforminu er veila sem varð til þess að menn fóru að lögum en gerðu samt þessa undarlegu hluti. Þetta held ég að sérstakur saksóknari eigi í sérstökum vandræðum með. Það er veila í hlutabréfaforminu um allan heim sem myndast þegar hlutafélög mynda keðjur af hlutafélögum, þegar einstaklingar mynda keðjur af hlutafélögum sem bíta í endann á sér, þ.e. þegar peningar fara í hring og eignarhaldið er falið á Tortola eða einhvers staðar annars staðar. Þetta held ég að sé aðalvandinn. Sérstakur saksóknari mun geta dæmt menn fyrir markaðsmisnotkun svona síðustu dagana en það var löngu áður sem þetta var komið í ljós.

Varðandi það að forsætisráðherra skipi þessa 25 — við erum í ákveðnum vanda með það hvernig við eigum að fara að þessu. Stjórnlagaþingið átti að heyra undir Alþingi og forseti Alþingis átti að stýra því þannig að við lentum í þeim vanda. Það er ekki betra að setja þetta undir framkvæmdarvaldið, að fara þá leiðina að forsætisráðherra skipi fulltrúana. Auðvitað hefði mátt tilgreina þá með nafni í þingsályktunartillögunni og segja að þetta fólk eigi að vera í stjórnlagaráði og búið. Það þarf enginn að skipa þá eða tilnefna neitt slíkt.

Svo varðandi það að draga tilviljanakennt úr þessum 522 nöfnum þá er mjög skemmtileg hugsun að láta tilviljunina ráða því hverjir komast að. Það er ljóst að þessir 525 höfðu allir áhuga á því að breyta stjórnarskrá, annars hefðu þeir ekki boðið sig fram. Sumir höfðu lagt mjög hart að sér og eflaust eru mjög margir færir þar. Kannski er þetta færasti hópurinn í landinu en auðvitað eru einhverjir inni á milli sem eru ekki eins færir og þeir gætu hugsanlega komist að þannig að þetta er dálítið tvíbent.