139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:03]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Nú langar mig að vita hvort hv. þingmaður hefur fleiri ástæður en þessa einu fyrir því að hafa greitt atkvæði, tafið fyrir eða staðið gegn hugmyndum um stjórnlagaþing, að eina ástæða hans fyrir því sé sú að Alþingi sé stjórnlagaþing samkvæmt stjórnarskránni. Sem slíkt getur það náttúrlega falið öðru þingi eða öðrum aðilum að gera tillögur og það er þannig sem þetta stjórnlagaþing sem við erum að tala um er sett á fót. Mig langar líka að spyrja hann hvernig honum hafi fundist reynslan af fyrri tilraunum Alþingis til að skipa nefndir til að gera tillögur um endurskoðun á stjórnarskránni.

Í þriðja lagi vegna svars hans, og ég þakka honum fyrir þessar skýringar á fulltrúaskiptum Sjálfstæðisflokksins í nefndinni sem eru greinilega algerlega eðlilegar, langar mig að spyrja hvaða afstöðu hann hafi tekið til þeirrar hugmyndar að hafa þessa uppkosningu samhliða Icesave-kosningunum. Um það er eðlilegt að uppi séu álitamál. En það var sérkennilegt í þeirri umræðu að það virtist svo sem að allir 16 þingmenn Sjálfstæðisflokksins og allur flokkurinn hefði eina afstöðu í því máli meðan í samfélaginu almennt og í hinum flokkunum voru menn að velta því fyrir sér. Mig langar að spyrja um afstöðu hans í því vegna þess að hann minnti sérstaklega á það að honum hefði þótt uppkosning einn af vænlegustu kostunum í þessu. En það er augljóst að við höfum ákveðið þol fyrir kosningum í landinu og það hefði ekki verið hægt að hafa kosningarnar með mjög stuttu millibili fyrir utan það að það hefði kostað mikið fé sem ég veit að ég og hv. þingmaður erum sammála um að ekki sé of mikið af í landinu um þessar mundir.