139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:05]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar ágætu spurningar. Í fyrsta lagi hvort það sé eina ástæðan fyrir því að ég er á móti stjórnlagaþingi að Alþingi er stjórnlagaþing samkvæmt stjórnarskrá, sem við báðir hv. þingmenn höfum svarið eið að, þá er svarið já. Ég tel að okkur beri að sinna breytingum á stjórnarskrá. Ég hef margoft í ræðum í þessum stól sagt að stórir gallar séu á stjórnarskránni. Ég hef meira að segja lesið upp nánast uppskrift að nýrri stjórnarskrá. Ég hef því mjög mikinn áhuga á að breyta stjórnarskránni og ég vil gjarnan að menn ræði mjög almennt um breytingar á stjórnarskránni. Það er ástæðan fyrir því að ég tel að við eigum ekki að víkja okkur undan þeirri skyldu.

Um það hvernig fyrri tilraunir hafa tekist til þá hef ég horft á það með sorg hversu erfiðlega hefur til tekist og ekki tekist að ná fram breytingum á stjórnarskránni. Kannski er það vegna þess að menn voru að deila um keisarans skegg, atriði sem mér finnst ekki vera stór, eins og auðlindir hér eða auðlindir þar, eða 26. gr. Ég hef lagt fram frumvarp um að við leggjum niður embætti forseta lýðveldisins, það er þekkt. Ég tel að við Íslendingar þurfum ekkert slíkt. Við höfum ekki haft kóng nema í óþökk þjóðarinnar.

Varðandi kosningar um Icesave, þá eru það gerólíkar kosningar. Annars vegar eru menn að greiða atkvæði, já eða nei, um mikla efnahagslega hagsmuni. Hins vegar erum við að greiða atkvæði í persónukjöri, kjósa um 500 manns til stjórnlagaþings til að breyta stjórnarskránni. Fyrir mér eru þessi tvö mál svo gjörólík að varla er hægt að mæta á sama kjördegi og á sama kjörstað til að greiða atkvæði um þau.