139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:07]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Frú forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um skipun stjórnlagaráðs sem er flutt af þremur hv. þingmönnum, þeim Álfheiði Ingadóttur, Birgittu Jónsdóttur og Valgerði Bjarnadóttur.

Ástæðan fyrir því að þessi þingsályktunartillaga er flutt er að sjálfsögðu sú að Hæstiréttur ógilti kosningu til stjórnlagaþings. Það sem verið er að gera með þessari þingsályktunartillögu er að mínu viti eingöngu það að verið er að breyta um nafn á stjórnlagaþingi í stjórnlagaráð, skipa síðan sömu 25 einstaklingana sem hlutu kosningu til stjórnlagaþings í svokallað stjórnlagaráð.

Mín skoðun er sú, virðulegi forseti, að í raun og veru sé verið að fara fram hjá eða hunsa réttara sagt niðurstöðu Hæstaréttar. Það sem kemur skýrt fram í greinargerð með þingsályktunartillögunni er að sú ákvörðun Hæstaréttar Íslands að ógilda kosningu til stjórnlagaþings sé bæði bindandi og endanleg. Ég er dálítið hugsi yfir þessum tveimur síðustu orðum, bindandi og endanleg, vegna þess að mér finnst þingsályktunartillagan ganga út á það að breyta eingöngu nafninu úr stjórnlagaþingi í stjórnlagaráð.

Hvað sem okkur finnst um skipun stjórnlagaráðs þá verður það samt að koma fram að í meðförum þingsins á þeim tíma í hv. allsherjarnefnd reyndu bæði stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar að nálgast sjónarmið hvor annars í þeirri vinnu. Þær hugmyndir sem voru fyrst uppi af hálfu hæstv. forsætisráðherra um stjórnlagaþingið voru allt öðruvísi en niðurstaðan varð, sem síðan var afgreidd á þinginu endanlega með skipun stjórnlagaráðsins. Í fyrsta lagi var tekið á það ráð, sem var mjög mikilvægt og skynsamlegt, að skipa svokallaða stjórnlaganefnd á undan sem mundi vinna ákveðna vinnu og síðan var þingið stytt og kostnaðurinn minnkaður.

Ég held, virðulegi forseti, að mun skynsamlegra hefði verið fyrir alla að draga örlítið andann, sérstaklega í ljósi þess hver áköll almennings og þjóðfélagsins voru um að fara í breytingar á stjórnarskránni og skipa stjórnlagaþing. Ég minni á að þegar kosið var til stjórnlagaþings á sínum tíma var það minnsta kosningaþátttaka í almennum kosningum hér á landi í sögu lýðveldisins, þrátt fyrir að hæstv. forsætisráðherra hefði hvatt alla til að taka þátt í kosningunni. Það segir kannski allt um hvaða ákall þjóðin er að gera til þessa máls.

Síðan var gerð könnun á eyjunni.is í desember sl. og hver var niðurstaðan þar? Hún var sú að 1,9% svarenda töldu það mikilvægt að stjórnlagaþingið tæki til starfa. Það segir okkur líka og staðfestir í hversu litlum tengslum forustumenn þessarar ríkisstjórnar og landsins eru í raun og veru við fólkið í landinu. Það segir allt sem segja þarf.

Hv. þm. Magnús Orri Schram sagði í andsvörum við hv. þm. Einar K. Guðfinnsson áðan: Hér getum við þó hugsanlega uppfyllt eina af þeim óskum og kröfu sem almenningur gerði til okkar í kjölfar efnahagshrunsins. Ég er algerlega ósammála hv. þm. Magnúsi Orra Schram um þetta vegna þess að ekki er ákall eftir þessu í þjóðfélaginu. Þessi könnun staðfestir það og þátttakan í kosningunum. Ég held að nær væri fyrir hv. stjórnarþingmenn og Alþingi að gera sér grein fyrir því að mesta krafan hjá fólkinu í landinu er að bregðast við skuldavanda heimilanna en ekki að skipa eitthvert stjórnlagaþing. Að mínu viti hefði verið skynsamlegra að bíða með þetta og síðan hefði mátt gera það með öðrum hætti. Bara kostnaðurinn við þetta stjórnlagaþing, eða stjórnlagaráð núna, þýðir að hægt væri að ráða 500 manns í vinnu á fínum launum í heilt ár. Ekki veitir af því í atvinnuleysinu og ekki veitir af því t.d. á heilbrigðisstofnunum landsins eða í löggæslumálunum á Íslandi, þar sem núna er t.d. verið að leggja niður eina lögregluembættið í Búðardal og þarf að keyra úr Borgarnesi til að sinna því stóra svæði. Hefði ekki verið skynsamlegra að nýta þessa peninga til að skapa atvinnu í stað þess að láta þá í svona bruðl og vitleysu? Ég bara spyr. Það er a.m.k. mín skoðun að það hefði verið skynsamlegra til að tryggja t.d. störf á heilbrigðisstofnunum, í löggæslunni og í grunnstoðum samfélagsins. Nei, það er ekki gert. Það er frekar hægt að bruðla með peninga annars staðar. Það er mjög dapurlegt, virðulegi forseti, að bruðlað skuli vera með fullt af peningum í dag.

Við ræðum mál á eftir, sameiningu Lýðheilsustöðvar og landlæknis. Þar er verið að bruðla með 25 millj. kr. í húsnæðiskostnað. Hvað þýðir það mörg störf? Það þýðir væntanlega um 6–7 störf í heilbrigðisþjónustunni eða hjá þessu embætti sem þýðir ekkert annað en að leggja verður þau störf niður á móti því að setja það í einhverja leigupeninga. Er það virkilega þetta sem við þurfum? Nei, virðulegi forseti, þetta er ekki það sem við þurfum.

Það hefur komið fram að ekki hafa allir staðfest þátttöku sína í stjórnlagaþinginu, og eðlilegt að fólk svari því ekki fyrir fram, ef það verður endanleg afgreitt frá Alþingi að skipa svokallað stjórnlagaráð og hunsa þannig niðurstöðu Hæstaréttar. Ekki er víst að allir þeir sem voru kosnir til stjórnlagaþingsins — eða voru ekki kosnir, þetta var ógild kosning — muni taka sæti sitt. Væri hugsanlegt að það fólk teldi sig þá ekki hafa nægilegt umboð til að taka þátt í því? Það gæti vel verið að það þýddi það.

Ég kom inn á það þegar við ræddum þetta á fyrri stigum málsins, þ.e. um persónukjör og landið eitt kjördæmi, að sannast hefur í þessum kosningum að það er algerlega ófær leið. 522 gáfu kost á sér og höfðu engin tækifæri til að kynna sig, alla vega ekki nægilega mikil, og niðurstaðan er eins og við þekkjum með fullri virðingu fyrir því ágæta fólki sem var hlutskarpast í þeirri kosningu. En eigi að síður er þetta staðfesting á því að það er algert brjálæði að fara fram með landið sem eitt kjördæmi í persónukjöri.

Það sem ég vitnaði í og sagði í fyrri umræðu um þetta mál á haustþinginu var sú hugmynd sem kom upp hjá sumum þingmönnum Vinstri grænna að hafa þetta hugsanlega með þeim hætti að menn mundu gefa kost á sér og svo yrði dregið úr pottinum, hugmyndin var í fyrstu að draga úr þjóðskránni. Ég er dálítið hugsi yfir því og hefði viljað skoða það og ræða ef menn vilja fara svona hliðarleiðir. Af hverju er verið að útiloka hina tæplega 500 sem hlutu ekki kosningu? Ég hefði alveg verið tilbúinn til að ræða það og skoða hvort skynsamlegra væri að draga þá úr þeim 522 sem gáfu kost á sér, vegna þess að kosningarnar voru dæmdar ógildar. Ég held að það hefði mátt skoða og ræða þá hluti hvort hægt hefði verið að gera það með þeim hætti.

En eigi að síður er það alveg skýrt í mínum huga að verið er að fara svona hliðarleið til að ganga á svig við og reyna að hunsa niðurstöðu Hæstaréttar með því að skipa sömu einstaklingana en skipta eingöngu um nafn, þ.e. breyta stjórnlagaþingi í stjórnlagaráð. Mér finnst þetta algerlega vonlaus vinnubrögð, frú forseti, og er ekki gott upphaf að þeirri vinnu sem mikilvægt er að fari fram í endurskoðun á stjórnarskránni.