139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:38]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Þegar eitthvað fer úrskeiðis verður maður að líta í eigin barm og horfa fast í spegilinn og hugsa: Hvað get ég gert betur? Það er þannig sem mér finnst ferlið að nýrri stjórnarskrá þurfa að vera og ég er sammála þingmanninum um að byggja þarf á langtímasátt og þetta á að vera langtímaferli. Ég get tekið undir það að við séum kannski að flýta okkur of mikið. En það er erfitt að gera þetta í sátt þegar sumir eru algerlega ákveðnir í að vera á móti þessu. (PHB: Hver er á móti því að breyta stjórnarskrá?) Það eru ýmsir á móti því.

Hvað það varðar hvers konar hermaður þingmaðurinn Pétur H. Blöndal er í baráttunni um Ísland þá verður hann að horfa sjálfur í þann spegil og svara þeirri spurningu. En mér hefur fundist þingmaðurinn Pétur H. Blöndal ágætur liðsmaður í ýmsum málum.