139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:52]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ein af mögnuðustu uppfinningum upplýsingarinnar er þrískipting valdsins. Fram eftir 18. öldinni var sú uppfinning einungis fræðileg, henni hafði ekki verið hrint í framkvæmd neins staðar. Síðan fyrir gráglettni örlaganna — nú notast ég við söguskýringu sem margir eru farnir að taka upp — varð mikið eldgos á Íslandi sem leiddi til uppskerubrests í Evrópu sem hratt frönsku byltingunni af stað. Með frönsku byltingunni var það „theorem“ sem upplýsingin gaf okkur, þ.e. þrískipting valdsins, prófað í raun.

Ástæðuna fyrir því að þrískipting valdsins er afkvæmi frönsku byltingarinnar má kannski rekja til smásögu sem sögð hefur verið um aðdragandann að henni: Eftir að uppskerubrestur varð og ljóst var að fólkið hafði ekki lengur korn til að baka brauð úr sem það lifði á var farið til Marie Antoinette og henni sagt að nú hefði fólkið ekki lengur brauð að borða. Þá á hún að hafa sagt: Af hverju borðar það ekki köku?

Víkur þá sögunni aftur til Íslands og þess sem við ræðum um. Að mörgu leyti finnst mér sú meðferð sem málið allt hlýtur vera vanvirðing við þá miklu uppfinningu sem þrískipting valdsins er. Hér sniðgengur framkvæmdarvaldið dómsvaldið með aðstoð löggjafarvaldsins, einfalds meiri hluta í löggjafarvaldinu, þ.e. hér er verið að rugla hlutverkum þessara stofnana í þeirri merku uppfinningu sem ég talaði um áðan. Það kemur því kannski ekki á óvart að lesa það í Morgunblaðinu í morgun að hæstv. forsætisráðherra hafi orðið að orði: Af hverju borðar það ekki köku? þegar henni var bent á hversu hátt olíuverð væri orðið í landinu og að það þrengdi að fólki hvað nauðþurftir varðaði. Af því að ég er búinn að vera með sögulegar tilvísanir, þá er e.t.v. við hæfi að hugsa um það sem Karl Marx sagði: Sagan endurtekur sig fyrst sem harmleikur og síðan sem gamanleikur. Þetta er að verða að gamanleik.

Í gærmorgun birtist mjög merkileg grein í Morgunblaðinu eftir einn af færustu stofnanahagfræðingum heims. Iðja þeirra er að stúdera hvernig stofnanir eins og eignarréttur, réttarkerfi og annað slíkt móta þróun samfélaga. Þessi stofnanahagfræðingur, Þráinn Eggertsson, skrifaði litla grein sem var mjög merkileg og bar yfirskriftina Hrakval. Hrakval er hugtak úr hagfræðinni sem fjallar í þessu tilfelli um að þeir sem taka sæti í stjórnlagaráði, eða -óráði eins og ég hef kosið að kalla það, sem við fjöllum um séu síst til þess fallnir að fjalla um stjórnarskrána og breyta henni vegna þess að það séu þeir sem síst virði stjórnarskrána. Hvernig er hægt að komast að þeirri niðurstöðu? Jú, í þingsályktunartillögunni birtist sú óvirðing við þrískiptingu valdsins sem allt þetta hefur leitt af sér. Þeir sem bera virðingu fyrir stjórnarskránni og þrískiptingu valdsins ættu því að hafna svona málsmeðferð og þar af leiðandi einnig því að taka sæti í ráðinu.

Þeir aftur á móti sem ekki bera næga virðingu fyrir stjórnarskránni og fyrir þrískiptingu valdsins veljast þá sjálfkrafa inn og eru þeir sem síst ættu að fjalla um þrískiptingu valdsins. Það er megininntak í grein prófessorsins sem birtist í gærmorgun í Morgunblaðinu.

Borið hefur verið á okkur sjálfstæðismenn að ástæðan fyrir því að við séum á móti stjórnlagaþingi og stjórnlagaóráði og hvað það heitir nú allt saman, sé vegna þess að við viljum ekki breyta stjórnarskránni. Síðasti ræðumaður, hv. þm. Margrét Tryggvadóttir, gekk jafnvel svo langt að segja að við værum einungis hermenn einhverra afla í stríðinu um Ísland og það þjónaði ekki einhverjum öflum að við mundum breyta stjórnarskránni. Það er alrangt eins og hver önnur firra.

Það er margt gott í stjórnarskránni en það eru líka einhverjir hlutir sem þarf að laga þar. Við höfum mjög gott dæmi um það núna að það þarf augljóslega að fara yfir hvernig stjórnskipuninni er háttað, synjunarvaldi forsetans og slíku. Síðan eru hlutir eins og auðlindaákvæði og ýmislegt annað sem þarf að endurskoða í stjórnarskránni. Við sjálfstæðismenn erum alls ekki á móti því og reyndar hlynntir því að það verði gert. En það þarf að gera í sátt sem flestra og helst allra vegna þess að stjórnarskráin er það grunnplagg sem við höfum í þessu landi. Það þýðir ekki að gera það með einföldum meiri hluta í Alþingi og í þeim flumbrugangi eins og nú er. En sumum virðist liggja meira á en öðrum og sumir virðast vera tilbúnir að stytta sér leið, enda sést það á þeim málum sem verið hafa innan veggja Alþingis að það er alltaf verið að reka mál til baka, að dæma hæstv. ráðherra sem lögbrjóta og annað slíkt. Það er þá kannski samkvæmt stílnum að fara fram með breytingar á stjórnarskrá í algerum flumbrugangi.