139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:15]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég veit ekki á grunni hvaða reynslu hv þingmaður leggur mér þennan skilning á samráði í munn. Ég leyfi mér að mótmæla þeim skilningi. Ég tel sjálfan mig ekki bera þann skilning á samráði að það feli í sér að ég ráði. Ég mótmæli þessum orðum harðlega. Ég lít ekki svo á að það sé einhver önnur leið í boði hér. Það liggur fyrir þingsályktunartillaga sem menn þurfa að taka afstöðu til. Eru aðrar leiðir í boði? Er hv. þingmaður að bjóða það, flutningsmaður tillögunnar, að hún vilji taka einhverjar aðrar leiðir til skoðunar? Það væri ágætt að fá það fram ef svo er, ef það er eitthvað fleira undir. Hér liggur fyrir þingsályktunartillaga sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir er flutningsmaður að. Í andsvari við mig, forseti, er hún að bjóða upp á einhverjar aðrar leiðir. Það væri ágætt að fá fram hvort það er bara þessi uppkosning eða eitthvað fleira.