139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:17]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég ætlaði bara að spyrja einnar spurningar en þær verða kannski tvær vegna samtals sem hér fór fram áðan milli hv. þingmanna. Það sem við erum að reyna að komast að, sem hlýddum á ræðu hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar, er: Hvað vill hann? Hvað er það sem hann vill?

Í þingsályktunartillögunni er rakin greinargerð sem fjórir af fimm nefndarmönnum í sérstakri nefnd komust niður á. Þar eru nefndir fjórir kostir. Þeir breyttust auðvitað eftir að Icesave-kosningin var ákveðin. Við spyrjum ósköp einfaldlega, að minnsta kosti ég: Hver af þessum kostum þykir þingmanninum bestur fyrst hann er á móti þeim sem þingsályktunartillagan gerir sérstaklega ráð fyrir? Hvað vill hv. þingmaður annað en að þvælast fyrir meiri hluta þingsins og ríkisstjórninni og þeim vilja í samfélaginu að koma á stjórnlagaþingi?

Í öðru lagi spyr ég, af því að hv. þingmaður vitnar í hæstv. innanríkisráðherra og tekur afstöðu með honum: Hvaða rök eru fyrir því að þessi tillaga til þingsályktunar brjóti úrskurð Hæstaréttar eða vanvirði úrskurð Hæstaréttar með einhverjum hætti? Getur þingmaðurinn nefnt þau rök? Hann hlýtur að geta það fyrst hann kemur hér í stólinn og mælir gegn þingsályktunartillögunni. Getur hann nefnt þau rök hér í fljótheitum, hver þau eru? Heldur hv. þingmaður að þau atriði sem Hæstiréttur nefndi og ógiltu kosninguna hefðu breytt úrslitum kosninganna? Heldur hv. þingmaður það? Getur hann fært fyrir því rök? Var svindlað í kosningunum? Hefðu úrslitin orðið öðruvísi ef einhver af þeim atriðum hefðu verið í lagi, þeim tæknilegu atriðum sem Hæstiréttur fann að? Er það svo? Ég bið þingmanninn að svara þessari spurningu.