139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:19]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Þvert ofan í það sem hv. þm. Mörður Árnason heldur er ég ekki sérfræðingur á öllum sviðum. Eins og ég gat um í ræðu minni eru aðrir sem eru mér miklu fróðari um lögfræðilega þætti þessa máls. Ég gerði það að sérstöku umtalsefni. Ef hv. þingmaður hefur ekki heyrt það þá nefndi ég það sérstaklega.

Þeir þættir sem ég var sérstaklega að ræða lutu að kostnaðarþætti þessa máls númer eitt, tvö og þrjú. Það vekur athygli mína að hvorugt þeirra sem hér hefur komið upp í andsvör við þann sem hér stendur hefur vikið einu einasta orði að því máli, ekki með nokkrum hætti, í hvaða stöðu er verið að setja forseta Alþingis. Það er í mínum huga töluvert alvarlegt mál vegna þess að það eru engar fjárheimildir fyrir þessu.

Hv. þingmaður spyr: Hvað vill hv. þingmaður? Ég sagði það hér áðan. Ég hefði frekar kosið að stjórnmálaflokkarnir kæmu sér saman um að víkka út umboð stjórnlaganefndarinnar. Ég veit ekki hvort ég get mælt þetta eitthvað mikið skýrar, ég hefði álitið að þetta skildist þokkalega vel.

Spurningar hv. þingmanns — ég man þær nú ekki allar, þær voru ærið margar eins og hans var von og vísa, hann ber mikið traust til þess að ég geti svarað öllum sköpuðum hlutum í ljósi þeirrar yfirgripsmiklu þekkingar sem hann telur mig hafa. Ég er ekki í neinum færum til þess, fremur en hv. þingmaður sjálfur, að leggja eitthvert mat á það hvort einhver atriði í kosningunni sjálfri hafi leitt til þess að niðurstöðurnar urðu ekki réttar. Það eina sem ég hef handfast er úrskurður Hæstaréttar. Ég hef heyrt menn deila um þetta hér út og suður, fram og til baka og ég er engu nær, ég hef bara þennan úrskurð.