139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:21]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Hin yfirgripsmikla þekking hv. þingmanns nær sum sé ekki til þess hvaða rök standi fyrir þeirri staðhæfingu að þessi þingsályktunartillaga sé ekki þingtæk, eins og flokkssystir (Gripið fram í.) hv. þingmanns sagði hér í umræðu um fundarstjórn forseta í fyrradag, eða afnemi þrískiptingu ríkisvaldsins, eins og annar hv. þingmaður sagði hér rétt áðan í umræðunni. Hann getur ekki fært nein rök fyrir því að þessi þingsályktunartillaga vanvirði Hæstarétt með nokkrum hætti.

Hv. þingmaður viðurkennir það líka, og það þykir mér vænt um að heyra, að hann sjái engin þau rök sem bendi til þess að aðfinnsluatriði Hæstaréttar hefðu breytt úrslitum kosninganna þar sem 84 þúsund Íslendingar, 84 þúsund kjósendur á Íslandi, völdu þá 25 sem hlutu kjör. Og við ætlum núna að treysta því fólki fyrir því að koma sér saman um tillögur til Alþingis, því að það er með sama hætti og áður.

Um kostnaðinn er það að segja að ég skil vel áhyggjur hv. þingmanns af því og ég held að við ættum að taka okkur saman um að koma þeim málum í betra horf og vonast ég til þess að hann hjálpi til við það. Hér er ósköp einfaldlega það að gerast að lagt er til að liður sem áður var ætlaður í stjórnlagaþing verði í fjáraukalögum færður yfir á stjórnlagaráðið. Ef það er í fyrsta sinn sem slíkar tilfæringar eru viðhafðar í þessum sal og þeim herbergjum sem hér eru í kring væri fróðlegt að heyra það frá hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni. Hann hefur mjög djúpa og yfirgripsmikla þekkingu á málefnum fjárlaganefndar og miklu meiri en ég nokkurn tíma.